DWC Dansstílar

LYRICAL

Lyrical dans er dansstíll sem svipar mjög til ballets og sameinar tæknina úr klassískum ballet við frelsið, flæðið og tjáninguna úr jazz, nútíma og samtíma dansi. Stíllinn leggur áherslu á að tjá tónlist og tilfinningar í gegnum hreyfingu og veiti texti lagsins sem dansinn er saminn við danshöfundi oft mikinn innblástur. Stíllinn er blanda af flóknum, nákvæmum, mjög tæknilegum og náttúrulegum hreyfingum sem flæða saman ein frá annarri.

Frá tónlistarlegu sjónarmiði þá flæðir dansrútínan og nær hátindi í takt við lagið sem dansað er við. Kóreógrafían dregur þó einnig fram önnur litbrigði lagsins eins og þagnir í tónlistinni eða andardrætti á milli orða sem eru oft áherslur sem danshöfundar velja sér að leggja auka áherslu á. Einfalt en markvisst og túlkað á einstaklega fallegan hátt í þessum dansstíl.