Nýtt skipulag á vornámskeiði

Líkt og auglýst hefur verið stóð til að fá erlendan gestakennara til þess að sjá um hluta af kennslu á vornámskeiði skólans. Okkur þykir miður að tilkynna að sökum óviðráðanlegra aðstæðna mun Kameron Bink ekki koma til landsins eins og fyrirhugað var. Þetta varð okkur ljóst seint í gærkvöldi og eru bæði skólinn og Kameron miður sín yfir því að svona hafi farið. Það kemur þó ekki að sök, við höfum farið í breytingar á skipulagi, snúið aðstæðum í tækifæri og sett upp nýja dagskrá.

Dansskólinn mun innleiða nýtt skipulag í kennsluskrá. Skipulag sem löngum hefur staðið til að innleiða og á sér fyrirmynd í dansskólum um allan heim. Hörfum við þá frá því skipulagi að halda föstum kennara á danshóp og munu kennarar þess í stað kenna hverjum danshóp, í hverri stöð, í eina viku í senn. Þannig fær hver danshópur nýjan kennara sem sérhæfir sig í ákveðnum dansstíl í viku hverri.
Dansstílar sem kenndir verða á vornámskeiði eru Contemporary, Jazz og Modern dansar. Auk þess verða kenndir danstímar sem kallast Commercial Choreography. Það er ekki dansstíll heldur frjáls túlkun danskennara samsett í dansrútínu (choreography). Hér er dansstílum blandað saman og oftar en ekki kemur innblástur úr ákveðnum dansstílum, allt frá jazz til street dansa.
Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna hér á heimasíðu skólans.