Eins og öllum á að vera kunnugt  þá höfum við gert hlé á danskennslu í danssal til og með 19. október. Það þýðir samt ekki að við munum ekki halda áfram að dansa.
Netþjálfun
Það gleður okkur að tilkynna að við höfum fært danskennsluna okkar yfir á netið þessa vikuna til þess að tapa ekki dýrmætum danstímum úr haustönn. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að við sendum myndband á alla hópa á þeim degi sem þeir ættu að vera að mæta í danstíma. Allir dansararnir okkar í D deild sem sækja danstíma tvisvar sinnum í viku, fá því tvö dansmyndbönd send frá okkur í þessari viku á þeim dögum sem þeir ættu að vera að mæta í danstíma í World Class stöð í sínu hverfi.
Þeir nemendur sem sækja danstíma með fleiri en einum danshóp í D deild fá fleiri myndbönd send eða eitt myndband fyrir hvern danstíma sem þeir eiga að sækja í vikunni.
Eftir að hafa prufukeyrt zoom um helgina þá ákváðum við að fara ekki þá leið. Of margir þættir sem geta farið úrskeiðis sem snúa að nettengingu og öðru. Það hentar þar af leiðandi ekki okkar starfsemi. Við viljum hámarka árangur nemenda og með þessu móti geta nemendur spólað fram og til baka í myndbandinu eins og hentar og horft eins oft og þeir þurfa til þess að ná sporum og dansrútínum. Allir fara á sínum hraða og hámarka þannig árangur.
Danstímar
Það eru mismunandi kennarar með danstímana fyrir alla hópa í vikunni og þeir kenna mismunandi dansrútínur.
Sumir tímar eru báðir choreo og aðrir eru bæði choreo (dansrútína) og drills (æfingar) á ákveðnum grunnsporum.
Hlökkum til að hefja netþjálfun og dansa með dönsurunum okkar í vikunni 🙂