Uppselt á jólasýningu!

Eins og öllum er kunnugt þá fer jólasýningin okkar fram á morgun. Það er frábært hve áhugi fyrir sýningunni er mikill og aðsóknin eftir því.
Nú hefur sú staða komið upp að uppselt er á báðar sýningar. Við bætt við miðum til sölu á fyrri sýningu og er enn hægt að festa kaup á miðum á midi.is á þá sýningu.
Annað er uppi á teningnum varðandi seinni sýninguna okkar. Það er alveg uppselt á hana og hefur myndast biðlisti.
Við ætluðum okkur að bjóða upp á frímiða fyrir börn undir 12 ára á aldri og höfum haldið eftir sætum. Eru þeir miðar ætlaðir systkinum nemenda og viljum biðja ykkur að einskorða ykkur við systkini en ekki vini nemenda ef þið getið komið því við.
Varðandi seinni sýningu þá yrðum við afar þakklát ef þið hafið tök á því að taka börnin ekki með á sýninguna. Við gerum okkur grein fyrir að það gæti komið sér illa fyrir einhverja. En ef þið hafið tök á því þá yrðum við ykkur afar þakklát. Þá gætum við gert þeim foreldrum kleift að mæta á sýninguna sem ekki hafa enn náð að tryggja sér miða.
Öll viljum við koma saman og horfa á nemendur sýna afrakstur vetrarins og vera partur af þessari upplifun nemenda í Austurbæ. Vonumst við til að við getum öll unnið saman að þessu svo allir foreldrar nemenda geti verið viðstödd sýninguna.
Um takmarkaðn sætafjölda er að ræða en sætafjöldi Austurbæjar er af sömu stærðargráðu og á stóra sviði Borgarleikhússins eða rúm 500 sæti. Húsið er því kjörinn vettvangur fyrir sýninguna. Taka þarf tillit til öryggismála og Brunavarnareftirlit leyfir einungis ákveðinn fjölda í húsinu á viðburðum sem þessum. Við erum því að biðla til ykkar að aðstoða okkur eftir bestu getu svo sem flestir geti notið þessarar stundar með okkur.
Okkur þætti vænt um ef þið gætuð tekið tillit til þessa.
Hlökkum til að sjá ykkur á morgun 🙂