Eins og öllum ætti að vera kunnugt þá tekur samkomubann stjórnvalda, vegna Covid-19 veirunnar, gildi á miðnætti. Banninu fylgja fjöldatakmarkanir og við höfum tekið þá ákvörðun að skipta þeim hópum upp sem þarf til þess að sýna ítrustu varkárni og mæta þessum nýju reglum. Skilyrði sóttvarnarlæknis í samkomubanninu er að 2 metrar séu á milli iðkenda. Við getum orðið við því í flestum hópum en munum skipta upp þeim hópum sem ná ekki að uppfylla þau skilyrði. Velferð og öryggi nemenda skiptir okkur öllu máli og með þessu móti getum við haldið áfram að dansa. Danskennsla heldur því áfram næstu þrjár vikurnar samkvæmt stundaskrá eða þar til vorönn lýkur formlega dagana 1.- 3. apríl (misjafnt eftir hópum).
Eins og kom fram á upplýsingafundinum fyrr í dag þá hefur aldrei verið mikilvægara en akkúrat núna að börnin geti haldið áfram að stunda íþróttir og áhugamál sín. Það er að sjálfsögðu undir foreldrum komið hvort nemendur mæti í danstíma eða ekki.
Tölvupóstur hefur verið sendur út á póstlista til foreldra með nánari upplýsingum.
Sýnum varkárni
Við biðjum alla þá sem finna fyrir einkennum flensu eða hafa verið í samskiptum við smitaða einstaklinga að vinsamlegast mæta ekki í danstíma. Verum skynsöm og sýnum varkárni. Endilega láta okkur vita ef nemendur eru veikir og komast ekki í danstíma.
Hreinlæti
DWC minnir á mikilvægi handþvotts og biður fólk um að fylgjast vel með leiðbeiningum landlæknis og sóttvarnarlæknis. Setjum heilsuna í fyrsta sæti, vinnum saman og hjálpumst að á þessum erfiðu tímum.
Hlýjar kveðjur,
DWC