Í gærkvöldi birtist yfirlýsing heilbrigðisráðherra um hertar samkomutakmarkanir sem taka gildi í dag, miðvikudaginn 7.október.

Um íþróttastarfsemi segir:
  • Íþrótta- og æskulýðsstarfsemi og tómstundir barna sem eru fædd 2005 og síðar er heimil.
  • Nálægðar- og fjöldamörk: Líkt og áður gilda nálægðar- og fjöldamörk ekki um börn fædd 2005 og síðar. 
Eru þetta um margt nokkur gleðitíðindi miðað við hvað virtist stefna í, í gær. Þessi ákvæði hér að ofan veita heimild fyrir því að starfsemi okkar fyrir börn fædd árið 2005 og síðar haldist óbreytt. Það er mikil gleði í hjarta sem fylgir því að geta haldið áfram að hitta alla dansarana okkar og dansað saman í tímum. Allir danstímar haldast því óbreyttir áfram samkvæmt stundaskrá fyrir danshópa 7-9 ára, 10-12 ára og 13-15 ára.  
 
Kennarar með grímur
Kennarar skólans halda áfram að vera með grímur við danskennslu af öryggisástæðum. Bæði inni í danssal á meðan á danstíma stendur og eins inni í byggingunni (hverri World Class stöð), fyrir og eftir tíma. Nemendur þurfa ekki að bera grímur í danstíma nema þeir velji það sjálfir. 
 
Foreldrar haldi sig utan stöðvanna
Við minnum á að foreldrum og forráðamönnum er óheimilt að koma inn í íþróttamannvirki, þ.e. allar World Class stöðvar, í okkar tilfelli.Við þurfum að biðja ykkur að skilja við og taka á móti dönsurunum ykkar fyrir utan stöðvarnar, fyrir og eftir danstíma.

Gerum okkar besta
Gerum okkar besta og fylgjum sóttvarnarreglum. Muna að spritta sig og þvo hendur og klæðast grímum þegar við á.

Ekki hika við að hafa samband við okkur ef þið hafið einhverjar frekari fyrirspurnir á netfangið okkar, dwc@worldclass.is.
Hlökkum til að hitta alla dansarana okkar í danstímum dagsins!
Hlýjar kveðjur,
DWC