Í ljósi nýjustu frétta þá hafa skóla- og íþróttasvið allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ákveðið, í samráði við almannavarnarnefnd, að öll íþróttamannvirki verði áfram lokuð. Þó svo að World Class sé opið þá tökum við áfram fullan þátt í að kveða niður áhætturnar sem skapast við hópamyndun og gerum slíkt hið sama með dansskólann okkar. Það verður því áfram hlé á dansæfingum í danssal en við höldum áfram af fullum krafti með netþjálfunina okkar þessa vikuna. Eins og tekið var fram á fundinum í  gær þá er mikilvægt fyrir börn og unglinga að halda í rútínu. Að reyna að aflýsa ekki öllu og finna nýjar leiðir til þess að láta hlutina ganga. Þar kemur netþjálfunin okkar inn.

Ákvörðun okkar byggist á því að sóttvarnaryfirvöld og almannavarnir hafa hvatt alla á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega til þess að halda áfram að koma í veg fyrir hópamyndun, nánd og blöndun aðila úr ólíkum átttum. Markmiðið er að draga úr dreifingu og vexti veirunnar. Því er lögð áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli ólíkra grunnskóla höfuðborgarsvæðisins. Hjá okkur er blöndun á milli ólíkra skóla og árganga á dansæfingum eins og tíðkast, og eðlilegt er, í frístundum barna og unglinga. Við þurfum því að standa saman og huga að samfélaginu okkar og vona að þetta ástand gangi yfir sem fyrst með því að leggjast á eitt.

Þessi ákvörðun verður endurskoðuð að viku liðinni, í takt við álit sóttvarnalæknis.

Uppbótartími
Allir nemendur okkar sem æfa á þriðjudögum og fimmtudögum eiga inni einn danstíma þar sem hlé var gert á æfingum frá og með fimmtudeginum 8. október og æfingar fóru ekki fram þann daginn. Við munum bæta upp danstímann hjá þessum hópum í lok haustannar eða þriðjudaginn 8. desember.

Allir danshópar hafa fengið sína tíma með netþjálfuninni okkar eftir að við gerðum hlé á æfingum í danssal. Við höldum starfinu okkar áfram með þessu móti og missum ekkert úr haustönn. Við erum spennt að komast aftur í danssalinn og vonum að það verði sem fyrst eða um leið og það er óhætt. Við hlökkum til að sjá áframhaldandi framfarir heima fyrir. Endilega senda okkur myndbönd. Alla kennara klæjar í puttana, okkur langar svo að sjá dansarana okkar.

Netþjálfun
Það er æðislegt að sjá þátttökuna og ánægjuna með netþjálfunina okkar. Við þökkum ykkur kærlega fyrir hrósin og það er æðislegt að sjá tövupóstana frá ykkur með hlýjum orðum um danstímana og myndböndin sem þið eruð að senda af dönsurunum okkar. Við höldum því áfram af þessum krafti og með sama metnað heima fyrir. Það eru mismunandi áherslur í hverjum danstíma og er það gert til að auka dansgetu nemenda okkar. Sumir tímar eru meira krefjandi en aðrir og við hvetjum nemendur til þess að gefa sér tíma, spóla til baka og taka hvern tíma á sínum hraða. Jafnvel að taka hvern tíma oftar en einu sinni, við höfum fengi fregnir af nokkrum nemendum sem taka hvern tíma tvisvar til þrisvar, Það er frábært og það sýnir metnaðinn í dönsurunum okkar.  Það er magnað hvað árangur er fljótur að láta á sér bera með æfingu og þrautseigju.

Hugum að vellíðan og andlegri heilsu. Hreyfing er svo mikilvæg á svona tímum.

Hlýjar kveðjur til ykkar allra og knús á alla dansarana okkar. Við hlökkum til að sjá áframhaldandi árangur í netþjálfuninni.

Hlýjar kveðjur,

DWC