ARNA BJÖRK, 17 ÁRA

Lýstu þér í 5 orðum?

Dansari, hress, húmoristi, metnaðargjörn og hreinskilin.

Hver er uppáhalds dansarinn þinn eða dansararnir þínir?

Ég gæti talið upp laaaangan lista af “uppáhalds dönsurum” en efst á honum yrðu örugglega Karon Lynn, Antoine Troupe, Brian Puspos, Tricia Miranda o.fl. Margir af mínum uppáhalds eru dansarar og danshöfundar sem ég hef farið í danstíma til, lært mjög mikið af, algjörlega fallið fyrir þeim og stílunum þeirra og lít ótrúlega mikið upp til eftir það.

Hvað fílarðu við DWC?

Það sem ég fíla við DWC er fyrst og fremst fjölbreytnin. Það eru svo margir þættir hjá DWC sem fela í sér fjölbreytni, bæði í dansstílunum sem eru kenndir í skólanum og svo líka bara fólkið. Enginn er eins, enginn dansar eins en á sama tíma eru allir bara að vera þeir sjálfir, það finnst mér svo frábært. DWC og dans yfirhöfuð hjálpar líka svo mikið til við að taka skref út fyrir þægindarammann og að prófa að þora, sem er mjög hollt.

Hvernig finnst þér DWC Dance Camp?

DWC dance camp er SNILLD. Það er svo mikilvægt fyrir dansara að prófa eitthvað nýtt og öðruvísi og að fá víðari sjón yfir dansheiminn og það sem er að gerast í dansskólum og stúdíóum annarstaðar á hnettinum. Það að DWC sé að flytja inn heimsfræga listamenn héðan og þaðan úr heiminum bara fyrir okkur að taka tvo og tvo tíma hjá þeim, þroskast og verða betri gerir mig mjög þakkláta!

Ertu pepp fyrir haustönn? Hverju ertu mest spennt fyrir?

Ég er sjúklega spennt fyrir haustönninni!! Þessi önn er sjúklega busy og frábrugðin öllum hinum sem ég hef æft á. Ég er spenntust fyrir vikunámskeiðunum með Antoine og Ibuki, allskonar nýjum viðbættum dansstílum og svo er ég sjálf að fara að byrja að kenna nokkrum hópum í haust sem ég er ótrúlega spennt fyrir. Ég hef það mjög á tilfinningunni að ég muni þroskast mikið sem dansari þessa önn

Hvað er dansdraumurinn?

Dansdraumurinn minn er að ferðast til útlanda og prófa að taka danstíma víðsvegar í heiminum. Mig langar mikið til LA í danstíma þar í nokkrum stúdíóum og stefni klárlega á það á næstu árum. Annars ætla ég bara að halda áfram að dansa og semja eins lengi og ég mögulega get og kemst svo vonandi á meira framfæri einn daginn þar sem ég gæti þá tekið að mér verkefni í stærri kantinum o.fl.

Þegar þú semur dans, hvaða stíll er það?

Þegar ég sem dansa þá hugsa ég voða lítið um hvaða stíl ég er að dansa. Ég set bara inn þau spor sem mér finnst passa inn í choreographyuna og við lagið, hvort sem það er hip hop spor, jazz spor eða jafnvel contemporary spor. Það er ekkert sem heitir rétt og rangt þegar það kemur að því að semja sinn eiginn dans. Ég myndi segja að stíllinn minn sé svona frekar mikil blanda af öllu.